Von Be Don – Formáli

„Stundum kemur fyrir að mig dreymir að ég sé að tala tungumál sem er ekki enska. Orðin koma úr munni mínum en ég veit ekki hvað þau þýða, ég veit ekki hvað ég sjálfur er að segja”.

Þetta sagði Magnús Gunnar hálfbróðir minn þegar hann útskýrði fyrir mér hvernig það væri að hafa tapað niður móðurmáli sínu. Hann sagði þetta á ensku því hann talar ekki íslensku þótt foreldrar hans hafi verið íslenskir.

„Það hefur líka komið fyrir að ég kannast við söngva sem ég vissi ekki að ég kynni. Ég fór næstum því að gráta um daginn þegar ég heyrði lag á íslensku - ég veit ekki hvers vegna, ég veit ekki um hvað var sungið,” sagði hann.

Magnús var altalandi á íslensku þegar hann flutti til Bandaríkjanna með móður sinni og stjúpföður stuttu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk. Hann man ekki hvenær hann hætti að tala íslensku en man eftir því að amma hans og afi í Bandaríkjunum hvöttu hann til að tala aðeins ensku.

 “Á þeim tíma fannst fólki íslenska hljóma næstum því eins og þýska en auk þess þótti ekki fínt að maður giftist konu, sem átti barn fyrir og að mæðginin væru útlendingar”.

Magnús er ástæðan fyrir því að þessi bók er skrifuð og söguhetjan heitir í höfuðið á honum. Í bókinni flytur Magnús til útlanda með foreldrum sínum og lærir þar nýtt tungumál en heldur einnig áfram að læra móðumál sitt þótt aðstæðurnar séu allt aðrar en á Íslandi. Ef til vill hefði Magnús bróðir minn gengið í gegnum það sama og nafni hans í bókinni ef aðstæður hefðu verið aðrar. Sumir atburðir í sögunni og samtöl barnanna um tungumál byggjast á raunverulegum dæmum sem komu fram í rannsókn sem ég gerði þegar ég var við nám í málvísindum fyrir meira en þremur áratugum. Þá rannsakaði ég máltöku sonar míns þegar hann bætti við sig nýju tungumáli og varð tvítyngdur. Rannsóknin tók rúmlega tvö ár og voru samtöl við barnið tekin upp með reglulegu millibili og dæmi skráð í dagbækur. Henni voru síðan gerð skil í BSc ritgerð minni í sálfræði og meistararitgerð minni í málvísindum við háskólann í Lancaster í Englandi 1984. Í upptökunum má til dæmis heyra son minn tala um líf sitt í nýja landinu, vini sína og um orðin sem hann lærði í skólanum. Þessar upptökur, sem eru ennþá til, veittu mér innblástur og eru fyrirmynd samtalanna í þessari bók. 

Fjölmargir Íslendingar eru í sömu sporum og bróðir minn og sonur og vonandi fá flestir þeirra sama tækifæri og Magnús í sögunni sem átti þess kost að verða tvítyngdur. Sem fullorðinn maður er sonur minn tvítyngdur, jafnvígur á íslensku og ensku en það var ekki allltaf þannig. Stundum hafði enska yfirhöndina og stundum íslenska og fór það eftir því hve oft hann átti þess kost að nota málin sín og rækta tvítyngið. Ef tungumál er ekki notað er nefninlega hætta á að það víki og gleymist.

Þessi bók er ætluð börnum sem eru tvítyngd eða eru á góðri leið með að verða það en einnig vonast ég til að hún efli áhuga allra barna á móðurmáli sínu og tungumálum almennt. Börn búa við annan veruleika nú en fyrir nokkrum áratugum. Mörg þeirra eiga heima í fjölmenningarsamfélagi og vegna internetsins heyra þau og nota frá unga aldri fleiri tungumál en móðurmálið. Bókin er gerð með þau börn í huga sem eru að byrja að læra að lesa og búa sig undir þennan fjöltyngda veruleika. Hún er skrifuð á íslensku en orð á ensku og á swahili eru kynnt til sögunnar á svipaðan hátt og gerist í dæmunum sem byggt er á. Aftast í bókinni eru nokkrar hugmyndir sem nota má til að skapa samtal milli barna og fullorðinna um tungumál og eðli þeirra.  

 
kastalihus2.jpg